Gangandi myndlistarsýning
Í verkinu Gangandi myndlistarsýning (2006), sýndi ég málverk undir berum himni, fjarri hefðbundnum sýningasal eða hvíta kubbnum sem virkar á suma sem óskiljanlegur fílabeinsturn. Hugmyndin var að færa myndlistina út og nær áhorfandanum og minnka þannig bilið á milli listar og almennings. Málverkin fjölluðu um náin tengsl. Um var að ræða mynd sem ég málaði af mér og móður minni þar sem við mynduðum ánægjuleg tengsl og aðra mynd af mér og ömmusystur minni sem gætti mín þegar ég var barn og var mér kær. Markmiðið var að í verkinu gæti myndlistin og áhorfandinn átt í ánægjulegum, nánum tengslum líkt og tengslin sem fjallað er um í málverkunum. Ég leitaðist við að mynda nálægð á milli áhorfandans og myndlistarinnar m.a. með því að færa verkin út í umhverfi samfélagsins og almennings.
Þátttaka myndlistarmannsins í Gangandi myndlistarsýningu gerir myndirnar lifandi þar sem svo virðist sem málverkin hafi fætur sem hreyfa verkið á milli staða. Auðveldara gæti reynst fyrir suma áhorfendur að mynda þannig tengsl við „lifandi“ verk þar sem listamaðurinn er á staðnum í eigin persónu fremur en við málverk í sýningasal.
Í framhaldi af Gangandi myndlistarsýningu (2006) bauð ég nokkrum samstarfskonum mínum að taka þátt í samskonar verki eða Gangandi myndlistarsýningu (2009). Sú sýning fór þannig fram að sama dag sýndum við bæði í Kaffistofunni Nemendagalleríi Listaháskólans við Hverfisgötu og í SÍM salnum við Hafnarstræti. Á opnunardeginum gengum við á milli sýningastaðanna með sjálfsmyndir sem hver og ein hafði málað af sér. Þannig teygði sýningin sig á milli hefðbundinna sýningastaða og út til almennings sem horfði í mörgum tilfellum furðulostinn og með ánægjusvip á fimm miðaldra konur þramma með sjálfsmyndir niður Hverfisgötuna, inn Austurstræti, inn á Austurvöll þar sem mótmæli fóru fram og að lokum að SÍM sýningasalnum í Hafnarstræti. Viðbrögð fólksins gáfu þannig til kynna þátttöku þess. Seinna hitti ég einn af áhorfendunum sem sagðist hafa tengt gjörninginn við mexíkanska líkfylgd. Af þessum viðbrögðum dró ég þá ályktun að viðkomandi hefði tekið þátt í verkinu á opinn hátt.