Verkið Endurvarps – hljóð – teikning fjallar um samspil myndlistar og tónlistar þar sem listformin kallast á, speglast og renna saman. Verkið byggir á og er framhald fyrri verka Unnar sem nefnast Endurvarp og fjalla um myndun sjálfsmyndar með speglun í tengslum. Í verkinu leika Guðrún Edda og Unnur sér með speglun, samspil, styrkleika, veikleika, öryggi og óöryggi í samspili milli þeirra sjálfra, myndlistar og hljóða.
Í iðrum jarðar er eldur. Ísland er nýtt land og eldurinn sem kraumar undir yfirborðinu brýst upp á yfirborðið af og til með hvellum. Við verðum fyrir áhrifum af sköpunarkraftinum þegar við göngum á íslenskri jörðinni. Verkið Snortinn af Íslandi er gert úr íslensku hrauni sem upphaflega var eldur í iðrum jarðar sem síðan þeyttist upp á yfirborðið, storknaði og varð að þeim steini sem skartið er gert úr. Margbreytileg birtingarmynd sköpunarkraftsins birtist í öllum regnbogans litum hraunsins. Þráðurinn sem umlykur hraunið í skartinu minnir á að beisla hráu orkuna innra með okkur og beina henni í átt að því sem við sannarlega kjósum.
Verkið Tilraunastofa Dunnu fjallar um ryþma og samspil Dagrúnar og Unnar í sameiginlegu rýmisverki þar sem þær vinna með litasamspil og form í endurvarpi. Verkið byggir á og er framhald fyrri verka Unnar sem nefnast Endurvarp og fjalla um myndun sjálfsmyndar með speglun í tengslum. Saman tjá listakonurnar tilraunakennda sköpun sem þær endurspegla hvor frá annari.
Myndlistakonurnar Dagrún Matthíasdóttir og Unnur Óttarsdóttir hafa unnið og sýnt saman áður í gjörnaþáttökuverki og málverkasýningum. Þær hafa báðar tekið þátt í fjölda samsýninga hérlendis og erlendis, og einnig haldið þó nokkrar einkasýningar.
Viðtal sem Halla Þórlaug Óskarsdóttir tók við Unni Óttarsdóttur og Dagrúnu Matthíasdóttur í Ríkisútvarpinu í Víðsjá 13. febrúar 2017