Samtvinna
Unnur Óttarsdóttir opnar myndlistarsýninguna Samtvinna fimmtudaginn 24. ágúst, 2023 kl. 17 í Gallerí Gróttu Eiðistorgi, Seltjarnarnesi. Sýningin stendur yfir til 16. september. Opið er á afgreiðslutíma safnsins kl 10.00–18.30 virka daga nema föstudaga frá 10-17 og laugardaga kl 11.00-14.00.
Straumar berast, mætast og aðskiljast. Vegir nálgast, mætast og fjarlægjast. Sambönd sameina innra og ytra landslag. Þræðir samtvinnast og byggja upp heildstætt vefverk. Tengingar frá einum tíma til annars flétta saman tilveruna. Langtímasambönd vefja lífið saman. Skörun andstæðna skapa nýja vídd. Þverfagleg nálgun býr til nýja heima. Samtenging andstæðra hliða einstaklings stuðlar að heilsteyptum persónuleika.
Í dáleiðslu sveiflast pendúllinn til hægri og vinstri og augun fylgja. Í EMDR meðferð þá fylgja augun fingri sálfræðingsins sem hreyfist til hægri og vinstri. Í listmeðferð tengjast orð og mynd. Í námslistmeðferð tengjast vitsmunir og tilfinningar.
Á sýningunni Samtvinna myndast tengingar á ýmsa vegu. Á milli hægri og vinstri handa, á milli tímaskeiða, á milli fólks, á milli kynslóða og svo mætti lengi telja. Málverk og ljósmyndir tengjast. Á sýningunni fjallar Unnur um tengsl við nána samferðamenn frá ýmsum tímabilum. Þannig fléttar hún tengslavef kynslóðanna. Teikningar sem gerðar hafa verið af eftirfarandi listamönnum í bókverka rými Unnar verða einnig til sýnis.
Birgir Sigurðsson
Birna Rún Karlsdóttir
Birta Guðjónsdóttir
Björg Eiríksdóttir
Einar Falur Ingólfsson
Helga Melkorka Óttarsdóttir
Ingibjörg Jóhannsdóttir
Ingibjörg Sigurjónsdóttir
Kristín Reynisdóttir
Pálmi Sigurður Jónsson
Ragnar Kjartansson
Rakel Sigurðardóttir
Unnur Lóa Jónsdóttir
Á sýningunni verður boðið upp á þátttöku í rannsókn sem tekur um 30 mínútur og felur í sér samtal, teikniæfingu og útfyllingu spurningalista. Áhugasamir geta sent Unni tölvupóst á unnur@unnurottarsdottir.com til að fá nánari upplýsingar.