Tag: ar-2014

Bergmál

Spegillinn hefur löngum verið förunautur listamannsins við listsköpun, hvort sem tilgangurinn hefur verið að ná fram fjarvíddaráhrifum, skapa skynvillur eða búa til rými. Ekki síst hefur spegillinn verðir nýttur sem aðstoðartæki við gerð sjálfsmynda. Unnur Guðrún Óttarsdóttir vinnur sig að nokkru leyti inn í þessa myndlistarhefð, þegar hún einbeitir sér að því að horfa í spegil á meðan hún teiknar á plexígler. Myndflötur verksins er í tveimur lögum, plexíglerið er fest fyrir ofan spegilglerið, og verður þannig til rýmismyndun úr endurspeglun og gegnsæi. Listaverkið er því samþætting yfirborða og má gera ráð fyrir að hver áhorfandi upplifi verkið á ólíkan hátt. Hann getur einblínt á teikninguna sjálfa, eða horft á marglaga heildarmyndina og ekki síst sér hann sjálfan sig endurspeglast inn í verkinu.

Spegilmyndin gerir það að verkum að með nærveru sinni verður áhorfandinn að þátttakanda í verkinu, en Unni er þátttökulist hugleikin. Þá má einnig sjá vísanir í Oplist, þar sem samspil óhlutbundinna forma er notað til þess að kalla fram sjónvillu og er sjónræn upplifun áhorfandans því mikilvæg til þess að fullkomna verkið. Einnig er unnið að því að fá áhorfandann til þess að hugleiða sína eigin skynjun, sköpunarferli listamannsins og að vekja upp spurningar um eðli listarinnar. Líkt og Oplistamaðurinn Victor Vasarely hélt fram: „Að upplifa nærveru listaverks er mikilvægara en að skilja það“.

Unnur er listmeðferðarfræðingur og vinnur með þann bakgrunn í myndlist sinni. Samhliða því að búa til verkið, skrásetur hún upplifun sína og það sem er að gerast innra með henni. Tæknin sem liggur að baki þessu verki er ekki ósvipuð ósjálfráðri skrift eða teikningu (e. automatism) þar sem undirmeðvitundin stjórnar hendinni. En var sú aðferð þróuð af súrrealistum til þess að losa listamanninn undan rökvísi og öðru sem hamlaði sköpunargáfunni.

Þrátt fyrir að listmeðferð hafi ekki orðið að starfsgrein fyrir en um miðja síðustu öld, þá hefur list verið notuð sem meðferð við sálrænum kvillum í miklu lengri tíma. Eins hafa listamenn lengi verið tengdir við kvilla sálarlífsins, þar sem sívinsælt hefur verið að benda á hve þunn lína hefur verið dregin upp á milli snilligáfu og geðveiki. Sérstaklega þegar tekið er mið af þeirri algengu hugmynd um að listamaðurinn verði að skapa list til þess að lifa, anda og vera til. Með það í huga myndast ákveðin útrás í verkinu og þá er hægt að líkja myndfletinum við einskonar persónulegt rými, þar sem innra líf listamannsins fær að birtast í afstrakt línuteikningu.

Helga Arnbjörg Pálsdóttir